Færsluflokkur: Bloggar

Norrænu gildin ?

Þá erum við lögð af stað í "norrænu gildin". Alltaf verið að reyna að hafa vit fyrir fólki. Hvernig er það, þarf þá ekki að fara að setja skatta á stóra og bensínfreka bíla? Er ekki einnig rétt að létta skatta á hollustu?
mbl.is Sykurskattur fyrir lýðheilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers eiga lesblindir að gjalda ?

Nú þegar lesblindir eru loksins búnir að fá viðurkenningu á fötlun sinni þá geta svona yfirlýsingar verið ansi skemmandi. Nógu erfitt er fyrir einstakling með lesblindu að halda uppi sjálfsálitinu án þess að þurfa að berjast við svona kreddur.
mbl.is Segir lesblindu afsökun menntakerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málfrelsið á alltaf að virða en...

Málfrelsið á alltaf að virða en það sem ég hef saknað að undanförnu eru lausnir. Auðvitað er fólk reitt, skelkað, sorgmætt og svikið og við höfum vissulega rétt á öllum þessum tilfinningum en ég er þeirra skoðunar að ef þú ferð fram á breytingar þá verður þú að segja hvað þú villt gera. Ég hef ennþá ekki heyrt eða séð hvað fólk sem fer fram á kosningar og afsagnir ráðherra hefur hugsað sér að gera í stöðunni. Það eina sem ég hef heyrt er að það vill ekki það sem verið er að gera. Hvaða lausnir hafið þið á vandanum. Þið getið ekki farið fram á breytingar ef þið hafið ekki einhverja stefnu. Það er eins og að henda skipstjóranum, stýrimanninum og vélstjóranum fyrir borð þegar skipið er í sjávarháska og vonast til að kokkurinn reddi öllu. Ef kokkurinn hefur einhverja haldbæra lausn í stöðunni þá endilega losið ykkur við skipstjórann og allt hans lið en svo lengi sem kokkurinn er ekki með neina lausn á ástandinu þá helda ég að af tvennu illu sé skipstjórinn betri.
mbl.is Ræða Katrínar ekki tekin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TIL HAMINGJU ÍSLAND !!!! eða hvað?

Ég á ekki til orð. Að fólk skuli vera að fagna því að heilum hóp af fólki sé úthýst frá Íslandi. Þarna kom íslenska smásálin í ljós, enn einu sinni. Hvað er að fólki? Hvað heldur það að þetta fólk hefði gert hér á Íslandi? Spillt ósjálfbjarga unglingum? Það að "íslensku þjóðarsálinni" hafi tekist að koma í veg fyrir að þetta fólk kemur til Íslands er ekkert annað en einelti. "Þið fáið ekki að koma heim til mín því þið eruð öðruvísi en ég". Hvar heyrði ég svona rök einu sinni, hmmmm? Já, í grunnskólanum. Og þegar maður kom með svona rök þá var maður skammaður og sagt að allir yrðu að vera vinir og það væri í lagi þó aðrir væru ekki alveg eins og maður sjálfur.

Annars kemur þetta mál mér ekki á óvart. Sjáið bara hvaða viðhorf stór hluti íslensku þjóðarinnar hefur til innflytjenda. Er það ekki líka af því að þeir eru öðruvísi. Alveg er ég viss um að fólk sem hefur þessar þröngsýnu hugmyndir um nýbúa hefur aldrei einu sinni talað við einn. Ég hef búið erlendis og ég hef orðið fyrir aðkasti vegna þess að ég var útlendingur. Það var mjög erfitt að þurfa alltaf að berjast við þennan dreka sem alltaf tókst að halda manni niðri hvernig sem maður reyndi. Það að fólk snéri sér frá manni þegar það heyrði að maður talaði með hreim var alltaf erfitt en það að maður skildi vera talin heimskari vegna þess að maður talaði ekki fullkomið mál það var það versta.

Íslendingar, við verðum að fara að taka okkur saman og viðurkenna að við erum ekki best í heiminum. Við erum eins og allir aðrir í þessum heimi, ekki fullkomin.

Hver var það aftur sem sagði að maður ætti að elska náungan eins og sjálfan sig? Þýðir það ekki að við eigum að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við sig. Mér finnst oft að fólk gleymi þessum mikilvæga boðskap. Nú er ég ekki mjög trúuð manneskja en ég er kristin og ég vona að mér hafi tekist að lifa eftir þessu boðorði. Ég vona líka að mér hafi tekist að fá börnin mín til að skilja hvað fellst í þessum boðskap. Fyrir mér hefur það alltaf þýtt að maður dæmir ekki fyrirfram. Maður gefur fólki tækifæri til að sanna sig áður en maður dæmir.


Þá er að ákveða sig hvað á að skrifa um.

Nú er ég búin að taka fyrsta skrefið. Búin að stofna bloggið og tilbúin að kasta mér út í þetta. En hvað á ég að skrifa um? Ég er búin að hugsa svolítið um þetta og ég held að ég verði að tileinka, allavega einhvern hluta bloggsins, umferðinni og málefnum tengdum henni.

Ég er ein af þeim sem ferðast mikið á tveimur jafnfljótum í umferðinni og ég er alltaf jafn hissa á hvað aðrir vegfarendur sýna þessum hópi lítinn skilning. T.d. í gær þá labbaði ég út í búð í hádeginu. Í fyrsta lagi þá voru stórir haugar af snjó á flestum gangstéttum þannig að aðeins var fært um mjóan stíg sem augljóslega var troðinn af vegfarendum sem höfðu átt leið þarna um á undan mér. Í öðru lagi var svo sleipt að ég mátti hafa mig alla við til að halda jafnvægi. Í þriðja lagi þurfti ég í nokkrum tilfellum að klifra yfir snjóhrúguna og út á akbrautina af því að einhverjir höfðu ekki fundið bílastæði fyrir bílana sína og fannst því tilvalið að leggja þeim á miðja gangstéttina, það er hvort sem er engin sem notar hana. Mig langar til að biðja fólk að sýna tillitsemi gagnvart öðrum í umferðinni. Sérstakleg á gangbrautum. Á hverjum degi verð ég fyrir því að bílstjórar fylgjast ekki með hvort það sé grænt ljós á gangbrautum heldur bara bruna af stað um leið og það kemur grænt ljós á þá. Þetta á sérstaklega við á gatnamótum þegar bílstjórar ætla að taka beygjur. Ég hef lent í því að komast ekki yfir á gangbraut því að bílarnir stoppuðu ekki þó svo að það væri grænt ljós á mig. Ekki þori ég fyrir mitt litla líf að labba út á gangbrautina og treysta á að bílarnir stoppi.

Ég var með hugmynd um að kaupa mér gemsa með myndavél þannig að ég gæti tekið myndir af öllum þeim bílum sem er lagt fáránlega og birta þær svo á blogginu. Fékk hugmyndina þegar ég sá bíl með límmiða sem á stóð  "IParkLikeAnIdiot.com" og ákvað að tékka á þessari heimasíðu. Þar voru nokkrar myndir af bílum sem lagt var fáránlega og einhver hafði límt þessa miða á þá. Það voru þá fleiri í þessum heimi sem voru að láta þetta fara í taugarnar á sér. En þetta er eitthvað sem kemur þá í framtíðinni.

Núna vona ég að fólk sem les þetta haldi ekki að ég sé "ein úr vesturbænum". Venjulega er ég ekki að skammast mikið. Finnst að fólk eigi að fá að gera það sem það vill (en bara svo lengi að það gangi ekki á rétt annarra). Mér finnst bara stundum að fólk hugsi eingöngu um rassg....... á sjálfum sér og gleymi því að maður á að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við sig. Maður heyrir mikið talað um að það þurfi að breyta umferðamenningunni á Íslandi og besti staðurinn til að byrja er á sjálfum sér. Sýnum tillitsemi, þolinmæði og skilning í umferðinni. Verðum ekki eins og "Fetmúli" í Disney-myndinni, þessi yndislegi heimilisfaðir sem varð að skrímsli þegar hann settist upp í bíl.


Fyrsta bloggfærsla

Jæja. Þá er ég loksins búin að stofna blogg. Vona að ég noti þetta eitthvað. Ekki annað hægt en að prufa. Kannski ég geti fengið útrás fyrir allar þessar hugleiðingar sem ég hef um þjóðfélagið, umferðina, sjálfa mig og náungann? Við sjáum til.


Um bloggið

Hinar ýmsu hugleiðingar

Höfundur

Hjördís Jóna Kjartansdóttir
Hjördís Jóna Kjartansdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband